Kristinfræði í skólum

Var að lesa frétt í 24 stundum sem fór eitthvað á þá leið að grunnskóli hér á landinu hafi afþakkað hina heilögu gjöf.... Nýja Testamentið!

Biskupinn er auðvitað brjálaður og talar um að það þurfi að sporna við "þeim hættulegu öflum" sem virðast ætla að grípa börnin heljargreipum. Það er náttúrulega ekki hægt að sætta sig við að skóli afþakki Nýja Testamentið vegna þess að kristinfræði er kennd í grunnskólum.

Kristinfræðin er örugglega búin að taka einhverjum breytingum hvað varðar innihald námsefnis síðan ég var í henni (farið að kenna "trúarbragðafræði") en litast samt af einhliða innihald. Ef einhver getur gefið mér link á hvar ég get lesið um kennsluskrá kristinfræði þá væri það mega!

Er það bara ég sem að skynja ákveðna hræðslu meðal kristna manna? Má ekki pent afþakka gjafir og engir eftirmálar án þess að það sé tileinkað illum öflum eins og má lesa úr orðum biskups... kannski var hann að misskilja (eða ég) eða veit meira um málið...

Veit einhver hvaða skóli þetta er?


Stefnuleysi...

Var með háleitar hugmyndir þegar ég hóf þetta blogg.... ætlaði að vera klár og skrifa málefnalegar umræður um hitamál í þjóðarmenningunni... það gerðist einu sinni og síðan dó það nokkurn veginn.... ég ætla að láta stefnuleysi ráða ferðinni hérna og skrifa nokkurn vegin það sem er efst í huga (sem fer væntanlega eftir skapi og öðru því um líku)...

Stefnuleysið verður vinur minn, þangað til að ég finn mig í einhverju fari og stefna fer að markast... held samt að ég haldi áfram að punga út asnalegum ljóðum eða textum.... bara til þess að skemmta þér lesandi góður!

Leiter


Prolific in non-prolific ways...

 

Undarfarið hef ég verið að hugsa um það hvað mér þykir mikilvægt í þessu lífi og hef komist að ýmsu um sjálfan mig.

 

Ég hélt áður fyrr að lífið væri bara þessi venjulega rútína: Vakna. Skóli/læra. Gera eitthvað. Sofa. Endurtaka. Með einstaka matarpásum, vefbrölti og sjónvarpshangsi. Hins vegar er eitthvað að malla upp í gömlu miðstöðinni. Ég er að átta mig á því að ég vill eitthvað meira, ég vill eitthvað meira en ég get gert. Kannski er "þori" rétta orðið, vill eitthvað meira en ég þori að gera. Orðinn þreyttur á þessu hefðbundna, vill gera eitthvað, fara eitthvað og sjá eitthvað sem skiptir mig máli. Ég er líka þreyttur á því hver ég er. Ég vildi að ég hefði meiri hæfileika eða getu til þess að uppfylla mínar langanir. Ég vil semja, syngja og njóta þess að vera frjór.

 

I'm baffled by my mundane being,

So baffled by what i'm seeing,

I'm bored by the belief of me,

So bored by what I see,

Changes are called upon, but they never come

Changes called upon, will you ever come?

 

Það versta við að fá góða hugmynd er að geta ekki framkvæmt hana (eða þora ekki að framkvæma hana). Í dag er ekki lagt mikið upp úr sköpun fyrir þessa óreyndu eða "getulausu". Kannski á það rætur að rekja í það hvernig við erum alin upp. Við búum í heimi sem gengur út á að ná ákveðnum stöðlum og þessir staðlar eru fastir í rótgrónu skrifræði. Það er ekki rúm fyrir sköpun í hefðbundnu kerfi (þessi pæling er föst í mér vegna Hauks, sem að nefndi þetta við mig og ég held að hann dragi innblástur af Óla Stef eða Melankolinn og mæli ég með að allir lesa bloggið hans um áhugaverða parið).

 

Þetta sköpunarleysi sem við flest, allaveganna ég, ölumst upp í veldur einmitt þessari krísu sem ég er að upplifa oftar en ekki. Ég er hugmyndaríkur á mjög óhugmyndaríka vegu. Þær fáu pælingar sem ég kem frá mér eru oftar en ekki ófrumlegar (sjá þessa færslu því til stuðnings). En ófrumleiki er samt ekki það eina sem er að plaga mig. Getuleysi. Ekki líkamlegt, heldur andlegt (eða jú kannski líkamlegt líka). Ég vil syngja, en get ekki sungið vel. Ég vil semja eitthvað stórt, sem einstaka texta og ljóð, sem eru lítil og ómerkileg. Ég vil vakna og átta mig á öllu því sem er merkilegt. Ég vil geta lesið og munað. Ég vil margt sem að ég get ekki vegna þess að ég hef ekki andlegu getuna til þess að koma því í verk. Líkamlega takmarkast ég á ýmsa vegu og væri til í að geta breytt því, en enn og aftur kemur þetta andlega getuleysi þar sem ég tel mig trúan um að ég geti  ekki breytt því sem er orðið.

 

I'm prolific in every non-prolific ways,

So prolific in an endless daze,

I'm awake yet my mind is not awaken,

So awake my Self is taken,

Changes are called upon, but they never come

Changes called upon, will you ever come?

 

Ég velti því fyrir mér hvort ég hefði orðið öðruvísi ef ég hefði alist upp í kerfi þar sem að sköpun skipti höfuð máli... En þrátt fyrir að kerfið í dag sé oftar en ekki það sem gefur mest, þá er það besta kerfið sem hingað til hefur verið búið til. Ef maður ætti að reyna að koma á kerfi sem að metur sköpun eða innsýn eða álíka huglæga áhrifaþætti, þá þyrfti að vera staðall, eins og er í hinu hefðbundna kerfinu... Þannig þetta virkar eiginlega ekki, allaveganna dettur mér ekkert í hug (týpískt).

 

Ég er vakandi en samt er hugur minn sofandi, það þarf að breytast... Og ég held að það sé að breytast. Allaveganna nennti ég að skrifa þetta. Kannski að vinir manns og fólkið sem manni þykir vænt um sé viagra-hugans? Ég elska það að ræða við vini mína um hluti sem skipta máli, það gerir mig graðan í þekkingu og viljan til þess að gera eitthvað merkilegt.

 

Ekki meiri perraskap í bili... Held að það verði nokkrar svona færslur í framtíðinni... Pælingar. Hugmyndir. Kvartanir. Mont. Allt sem mér dettur í hug... Kannski að maður hendi inn fleiri textum og ljóðum ykkur til skemmtunar... Er dálítið frelsandi að gefa þessum ljóðum lausan tauminn á netinu, þar sem hver og einn með internet aðgang getur nálgast þau og sagt það sem þeim finnst um þau.

 

Leiter...


Skammast mín fyrir að vera Íslendingur!

Í ljósi fréttar sem birtist aftast í fréttablaðinu í dag (21. nóvember) ætla ég hér með að lýsa því yfir að ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur.

Ekki það að þessi atburður er einstæður eða sé aðal-ástæðan, heldur er þetta dropinn sem fyllti mælinn. Netið er heimur heigullanna. Það að fólk dirfist að hóta fólki fyrir að vinna vinnu sína!? Síðan er það Snæbjörn yngri, sem á engan hátt tengist Smáís eða torrent sem lendir fyrir barðinu á fávitum sem ekki vita hvað þeir eiga að gera með tíman sinn.

Skamm Ísland.


In Rainbows / Radiohead (2007)

Er bara þrusu góð plata! Ein af þessum hefðbundnu Radiohead plötum, sem þurfa oftast 3-4 hlustanir áður en maður fer að meta þær.

Ég er mjög sáttur með heildina en þó hefði ég verið til í að heyra fleiri MJÖG GÓÐ lög. Reckoner er klárlega besta lagið að mínu mati, alveg ótrúlega flott í alla staði! Nude fylgir sterklega þar á eftir.

Þessi tvö lög skara framúr á þessari plötu. Reckoner hefur heildina, en Nude er bara svo fallegt, þá sérstaklega miðjukaflinn í laginu.

Hin lögin eru mjög öflug, þó að sum þeirra eru ekki það eftirminnileg eins og Weird Fishes/Arpeggi.

Hljóðfæraleikur er til fyrirmyndar á plötunni, en það er söngurinn eins og alltaf sem er það fallega við þessa hljómsveit. Hann er ótrúlegur hann Thom Yorke
Thom Yorke

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gef þessari plötu 3 og hálfa stjörnu!  Ef ég ætti að miða hana við fyrri plötur þá liti listinn svona út:
The Bends
OK Computer
Hail to the Thief
Amnesiac
In Rainbows
Kid A
Pablo Honey

Ef þið viljið fræðast meira um hljómsveitna ýtið þá hér! 


Ég harma þetta mjög!

Það er innilegt álit mitt að það eigi að skilja að trú, og þar með sköpunarkenninguna, og skóla. Ég held að það sé bara skynsamlegt að kenna þróunarkenninguna og láta þar við sitja. Ef fólk vill fara út í þessa umræðu þá mæli ég með að lesa þessa wikipediusíðu.

Báðar þessar kenningar eru settar upp fræðilega og allt gott með það, en ef litið er til ýmsa þátta þá hefur þróunarkenningin yfirburði. Það á að kenna þær kenningar sem best eiga við til þess að útskýra náttúrufyrirbrigði, þangað til að gögn fyrir öðru koma fram.

Annars er ég heitur fyrir umræðu ef einhver vill tjá sig! 


mbl.is Harma afstöðu Guðfinnu Bjarnadóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á (og hvernig þá) að minnka reykingar á Íslandi?

Nú er það orðið almenn þekking að reykingar eru óhollar og engum manni góðar. Í mörgum tilvikum hefur verið sýnt fram á að reykingar leiði að krabbameini seinna um ævina. Nú spyr maður sig afhverju stjórnvöld leyfa eitthvað sem hættir heilsu þegna ríkisins?

Margir reykingamenn líta á það sem rétt sinn til þess að velja hvað þeir gera með sína heilsu og enginn nema þeir eiga að ákveða það. Því er ég sammála svo lengi sem að þeir stofni öðrum ekki í hættu með óbeinum reykingum og öðru.

Þrátt fyrir þessi blessuðu mannréttindi einstaklinga, þá er ýmislegt sem að ríkið getur gert til þess að minnka reykingar. Meðal annars getur ríkið hækkað verðið á sígarettum eða þá reynt að draga úr þeim með auglýsingum, varnarorðum á pökkum, fræðslu og öðru tengdu.

En hvor leiðin er betri og önnur réttlætanlegri en hin?

Að hækka verð á sígarettum:
Hærra verð ýtir undir að reykingamenn minnki það magn sem það reykir, því það einfaldlega kostar of mikið að reykja mikið. Hagfræðingar hafa fundið að 10% aukning á verði leiðir til um 4% minnkunar á eftirspurn eftir sígarettum. Enn frekar eru unglingar áhrifagjarnari gagnvart hærra verði sígarettna, en 10% aukning á verði leiðir til um 12% minnkunar á eftirspurn meðal unglinga (Economics (2006) eftir N.G. Mankiw og M. P. Taylor).
eftirspurn_verd

 

 

 

 

 

 

 

Þetta bendir til þess að hækka verð á sígarettum skila þó nokkrum árangri. En þá er spurningin hvað boðorð og auglýsingar gera.

Að byrja herferð gegn sígarettum:
Ef herferðir og boðorð skila sínu þá geta þau verið effectívari en hækkun á verði. Ef það er ákveðin eftirspurnarkúrva þar sem er ákveðið jafnvægi milli verðs og eftirspurnar, þá myndi sú kúrva haldast en færast neðar í eftirspurn. Það er að verðið helst en eftirspurnin minnkar.
eftirspurn_annad

 

 

 

 

 

 

 

Það er þá háð því hversu vel herferðinar ná til fólks. En einnig er spurning hvort einhver blanda af aðferðum gæti skilað maximum árangri.

En eitt slæmt sem fylgi því að hækka verð á sígarettum er að það hefur verið sýnt fram á að þá eykst notkun annarra vímuefna eins og marijuana! (Economics (2006) Mankiw og Taylor).

Reykingar eru dálítið hitamál hérlendis, sem sést vel í nýlegri umræðu um bann á reykingum á almenningsstöðum. Það eru þó flest allir sáttir með það svona eftir á.

En ég reyki ekki þannig ég veit ekki hver staða reykingafólks er á því hvort það myndi kaupa minna (og væri ánægt með það) af sígarettum ef verðið hækki!? Einnig hafa þessar auglýsingar einhver áhrif?


Á að leyfa birtingar á áfengisauglýsingum?

Það er kannski ekki til umræðu í samfélaginu í dag hvort það eigi að leyfa birtingar á áfengisauglýsingum, en sú umræða á eftir að fara af stað. Í dag hefur ÁTVR réttinn til þess að selja áfengi ásamt birgjum, en það eru birgjarnir og framleiðendur sem hagnast mest á auglýsingum. Eins og staðan er í dag þá má auglýsa bjór sem er talinn vera léttbjór, en þó vita flest allir að auglýsingarnar eru hannaðar þannig að þær geta virkað sem auglýsing fyrir venjulegan bjór.

Ég held að aðal ástæðan fyrir því afhverju auglýsing á áfengi er bönnuð er að ekki er hægt að varna því að börn og unglingar, sem ekki hafa aldur til þess að kaupa, geta orðið fyrir áhrifum þeirra.

Þessi ástæða er góð og gild. Margar rannsóknir, framkvæmdar í BNA, hafa sýnt að aukin nálægð við áfengisauglýsingar ýtir undir aukna drykkju meðal ungmenna. Einnig hafa þær sýnt að nálægð við áfengisauglýsingar spáir fyrir um drykkju seinna meir[1].

Af þessu að dæma má kannski útiloka að áfengisauglýsingar verði nokkurn tíman leyfðar, því að við viljum ekki ýta undir það að ungmenni, sem ekki hafa aldur til, hefji drykkju. En þó þá er spurt, er eitthvað hægt að gera til þess að draga úr því að ungmenni verði fyrir áhrifum auglýsinga fyrir bjór og annað áfengi? Og ef því er náð er hægt að leyfa auglýsingar fyrir slíka drykkju?

Rannsóknir hafa sýnt að ungt fólk dregst að auglýsingum sem innihalda einkenni líkt og tónlist, dýra- og mannlega karaktera, sögur og húmor (M.J. Chen og fleiri).
Enn frekar hafa þær sýnt að ungt fólk dregst að vörumerkjum, eins og áfengi, sem eru tengd við áhættusama hegðun og sem færa, að þeirra mati, tafarlausa ánægju, unað og félagslega stöðu (C. Pechmann og fl.).
Einnig er ungt fólk sem líkar við áfengisauglýsingar, líklegra til þess að hafa jákvæðar væntingar gagnvart notkun áfengis (E.W. Austin og fl.)[2].

Þessar staðreyndir byggja á rannsóknum í BNA, þar sem auglýsingar á áfengi eru leyfðar í mörgum fylkjum. En ef það ætti að leyfa auglýsingar á áfengi hérlendis, þá þyrfti að sporna gagnvart þeirri þróun sem hefur verið í gangi þar.
Auglýsingar eru oft hannaðar til þess að hafa áhrif á ungt fólk og eru auglýsingatímar og staðir oftar en ekki staðir og tímar, sem ungt fólk verður fyrir sem mestum áhrifum.

Ef auglýsingar yrðu leyfðar hér þá þyrfti í fyrsta lagi að vera fylgst með og settar takmarkanir á hönnun þeirra. Í öðru lagi ættu auglýsendur ekki að fá leyfi til þess að auglýsa á tímum og stöðum þar sem ungt fólk verður fyrir miklum áhrifum. Það er lítill tilgangur í því að leyfa auglýsingar núna, en ef sala á bjór og léttvíni verður gefin frjáls þá finnst mér að þetta ætti að fylgja með. Þó með mjög miklu eftirliti og varkárni.

Hvað finnst ykkur?


[1] http://camy.org/factsheets/index.php?FactsheetID=1

[2] http://camy.org/factsheets/index.php?FactsheetID=1


Bjór- og Léttvínssala - Hver er sannleikurinn?

Á að gefa bjór- og léttvínssölu frjálsa er spurt.

Bakgrunnur:

Áfengisbann var á Íslandi milli 1915 til 1922.  Takmörkunum þess var ekki að fullu aflétt fyrr en 1989 með lögleyfingu bjórs.  Áfengisbanninu var aflétt vegna fisksölusamninga við Spán[1]. Frá og með 1. desember 1995 var einkaréttur ÁTVR til innflutnings áfengis og sölu til endurseljenda afnuminn og innflytjendum, framleiðendum og heildsölum, sem höfðu til þess sérstakt leyfi, heimiluð sala til endurseljenda[2].

 

Rök með því að gefa bjór- og léttvínssölu frjálsa:

  • Áfengisneysla ungmenna fer minnkandi (sjá mynd 1 í heimild). Árið 2003 sögðu 54% nemenda við 10. bekk að þeir höfðu orðið drukknir á síðast liðnum 12 mánuðum, þetta hlutfall var 44% árið 20063.
  • Áfengisneysla menntaskólanema á árunum 2000-2004 hefur haldist dálítið stöðug[3].
  • Á sama tíma hefur áfengissala aukist stöðugt frá árinu 1995[4], frá 4,76 lítrum af hreinum vínanda til 7,20 lítra.

 
Þessar staðreyndir gefa það í skyn að aukin sala á áfengi auki ekki drykkju ungmenna. Þótt að sala á áfengi myndi aukast enn meira[5] ef sala verður frjáls, þá miðað við þessar staðreyndir ætti ekki að auka neyslu ungmenna. Aðgengi og annað gæti hins vegar aukið neyslu ungmenna, en það hefur lítið að gera með aukið magn á sölu hvort ungmenni auki drykkju sína.

  • Meirihluti (59%) fullorðinna vill að salan verði gefin frjáls[6]. Vilji þjóðarinnar?
  • “Aftur á móti má reikna með því að um leið og einkaréttur ríkisins verður afnuminn muni spretta upp vínbúðir sem sérhæfa sig í betri og dýrari vínum. Það myndi líkast til auka bæði úrval og gæðin.
    Rökin sem mæla með því að færa vín og bjór í matvöruverslanir eru fyrst og fremst þau að þá muni hagnaðurinn af sölunni renna í vasa kaupmanna í stað ríkiskassans.  Hvort það telst gott eða slæmt verður hver að dæma fyrir sig.”
  • Auðveldara aðgengi fyrir fólk sem býr ekki nálægt ÁTVR verslun.

Rök á móti því að gefa bjór- og léttvínssölu frjálsa:

  • Eftirlit yrði verra en það hefur verið og yngra fólk gæti í ríkara mæli keypt en hingað til hefur tíðkast. Í Finnlandi hefur verið sýnt fram á þetta[7], en þar gátu um 46,6% ungmenna, sem ekki höfðu aldur, keypt áfengi í búðum. (Ekki eru gefnar tölur um þetta hlutfall þetta var fyrir). En miðað við að aðeins 5,4% íslenskra ungmenna, sem ekki hafa aldur, hafa keypt áfengi í ÁTVR[8] má telja að hlutfallið hér á Íslandi muni hækka.
  • Aukið áreiti fyrir fólk með Alkahólisma. Það getur varla talist gott ef að fólk með þennan sjúkdóm getur ekki farið að versla án þess að verða fyrir áreiti. Þá kemur upp spurning um sér álmu fyrir áfengi (líkt og tóbak í fríhöfninni).
  • Landsbyggðin mun tapa[9], þar sem að flutningsgjald bætist að öllum líkindum ofan á verðið sem verður á höfuðborgarsvæðinu. Í dag kostar vínflaska jafn mikið í Reykjavík og á Þórshöfn.
  • Aukning yrði á auglýsingum á áfengi, en það hefur verið sýnt fram á í Bandaríkjunum að auglýsingar hafi slæm áhrif á ungmenni[10]
  • Aukin drykkja gæti þýtt aukning í sjúkdómum sem fylgja drykkju.
Álit mitt:
Þetta eru ekki tæmandi rök í báðum flokkum, en bara svona til þess að gefa einhverja mynd af þeim rökum sem dregin eru upp af báðum flokkum. Þessi rök hef ég sé verið notuð af netverjum og einnig hef ég náð sjálfur í upplýsingar og túlkað þær.
 
Ég er með því að leyfa sölu á bjór og léttvíni. Tel ég þá að það muni hafa meira gott í för með sér heldur en slæmt. Ég tel að það slæma sem hefur gerst í öðrum löndum gæti reynst okkur vel, því við eigum að draga lærdóm af því.
 
Nú er spurningin hvað finnst ykkur? Hver er sannleikurinn (of svo má að orði komast) í þessu máli?

[1] http://209.85.135.104/search?q=cache:BypAA0kNH-0J:kennarar.fss.is/aegirkarl/SAG203/Haust%25202005/Sal203%2520G2%2520k8%2520stormasom%2520ar%2520Haust2005.doc+%C3%81fengisbann+%C3%A1+%C3%ADslandi&hl=en&ct=clnk&cd=3

[2] http://www.lydheilsustod.is/rannsoknir/afengi-og-vimuefni/talnaefni/ytarefni/nr/1758

[3] http://vimuvarnir.is/greinar/greinasafn/afengi/nr/2096

[4] http://www.lydheilsustod.is/media/afengi/rannsoknir/Afengi_neysla_04_07.jpg

[5] http://vimuvarnir.is/greinar/greinasafn/afengi/nr/1063

[6] http://www.svth.is/user/news/view/0/235

[7] http://vimuvarnir.is/greinar/greinasafn/afengi/nr/912

[8] http://www.lydheilsustod.is/media/afengi/annad/KynninESPAD.pdf

[9] http://www.fka.is/?i=2&o=606

[10] http://www.lydheilsustod.is/rannsoknir/afengi-og-vimuefni/ytarefni/nr/1436

 


mbl.is Á að gefa bjór- og léttvínssölu frjálsa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Stefnuleysi... þangað til stefnan skýrist!

Höfundur

Guðmundur Gunnlaugsson
Guðmundur Gunnlaugsson
Höfundur er nemi við Háskóla Íslands. Hann hefur áhuga á því að komast að hinu rétta um hin og þessi mál.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • eftirspurn annad
  • eftirspurn verd
  • Mynd 1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband